top of page

Óhófleg notkun fludelda skaðleg heilsu.

Óhófleg notkun fludelda skaðleg heilsu.

Óhófleg óstýrð notkun Íslendinga á flugeldum leiðir til alvarlegrar fyrirsjáanlegar mengunar sem hefur áhrif á heilsu og vellíðan lungnasjúklinga sem eru allt að 5-10% landsmanna og eru í þeim hópi bæði börn og fullorðnir.“ Þetta segja þrír háskólakennarar í bréfi sem birtist í nýjasta hefti Læknablaðsins. Í bréfinu er rakið hvernig staðið hefur verið að notkun flugelda hér á landi á undanförnum árum og hver áhrifin hafa verið á andrúmsloftið og heilsu fólks. Bréfritarar eru Gunnar Guðmundsson, lungnalæknir og prófessor í lyfja- og eiturefnafræði, Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor í umhverfisverkfræði, og Þröstur Þorsteinsson, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði.

Gríðarleg loftmengun.

 

Á fyrri hluta þessa árs var mjög fjallað um þá miklu loftmengun sem lagðist yfir allt höfuðborgarsvæðið um síðastliðin áramót. Sýndu niðurstöður rannsókna m.a. að svifryk hefði mælst afar hátt um áramótin og var stór hluti þess mjög fínn, það var málmríkt, kolefnisríkt, brennisteinsríkt og klórríkt. . Slík mengun er afar varasöm fólki.  Í viðtali við Morgunblaðið í apríl síðastliðnum sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mengunina áhyggjuefni og ekki ásættanlega. „Við verðum vitanlega að bregðast við,“ sagði ráðherrann í áðurnefndu viðtali. Ekki er þó að sjá að neitt hafi verið aðhafst í málinu á þeim tíma sem liðinn er. Engin breyting hefur verið gerð á reglugerð um skotelda og innflutningur þeirra og sala verður því með hefðbundnu sniði nú fyrir áramótin.

Morgunblaðið reyndi án árangurs að ná tali af umhverfisráðherra.

Leiðir til að takmarka.

Í bréfi þremenninganna er rætt um mögulegar leiðir til að takmarka skaðleg áhrif flugeldanotkunar. Bréfritarar segja að hægt væri að setja markmið um hversu mikið af flugeldum megi flytja inn á hverju ári. Ef horft sé til síðastliðinna 15 áramóta hafi svifryksmengun farið yfir heilsuverndarmörk annað hvert ár. Þeir segja að ef innflutningurinn helmingaðist myndi svifryksmengun sjaldnar fara yfir heilsuverndarmörk. Til að tryggja að staðið sé við heilsuverndarmörk þyrfti hins vegar að minnka magn innfluttra flugelda áttfalt. Hægt væri að banna auglýsingar líkt og gert er með áfengi og tóbak. Einnig mætti minnka vöruframboð og hætta alveg með þá flugelda sem menga mest við jörðu. Að auki mætti íhuga skilagjald fyrir umbúðir af flugeldum til að minnka flugeldaúrgang í nágrenninu. Nýleg erlend rannsókn gefi hins vegar til kynna að meiri árangur náist í loftgæðum þar sem almenn notkun flugelda sé bönnuð.  Bréfritarar segja mikilvægt að halda í hátíðarstemmningu um áramót og því gætu sveitarfélög verið með skipulagðar sýningar, eins og ljósasýningar í bland við tónlist. Það hafi t.d. gefist vel í Hong Kong. Þeir benda á að skoðanakönnun sýni að 27% Íslendinga styðji bann við almennri notkun flugelda, 80% landsmanna finnist gaman að horfa á flugelda en aðeins 45% finnist gaman að skjóta þeim upp. Flugeldasýningar á vegum opinberra aðila myndu því þjóna meirihluta

þjóðarinnar.

Guðmundur Magnússon.

gudmundur@mbl.is.

Þarf ekki að vera svona.

  „Það er ekkert náttúrulögmál að þetta þurfi að vera svona,“ segir Gunnar Guðmundsson lungnalæknir um flugeldamengunina um hver áramót. Honum finnst miður að í byrjun hvers árs sé talað um málið og kvartað en síðan ekkert aðhafst. Hann bendir á að þjóðin hafi rokið upp á dögunum hneyksluð vegna ummæla þingmanna sem særðu minnihlutahópa. „En það er ekkert gert þegar annar minnihlutahópur, lungnasjúklingar, eru særðir, ekki með orðum heldur líkamlega með svifryksmengun.“ Með bréfinu í Læknablaðinu sé verið að taka til varna fyrir þetta fólk og benda á leiðir sem hægt er að fara í stað þess að hver og einn landsmaður skjóti upp sínum flugeldum og mengi umhverfi og andrúmsloft.

bottom of page