top of page

REYKJALUNDUR

Á Reykjalundi fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að því að bæta lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita.
 

Meðferðin á Reykjalundi byggist á hugmyndafræði endurhæfingar þar sem teymisvinna sérhæfðs fagfólks er lögð til grundvallar. Markmiðið er að sjúklingar nái aftur eins góðri andlegri, félagslegri og líkamlegri færni og mögulegt er. Lögð er áhersla á að sníða meðferðina að þörfum sjúklinga og fer hún fram bæði í hópum og einstaklingsbundið.
 

Reykjalundur er stærsta endurhæfingarstofnun landsins. Árlega njóta þar á fjórða þúsund sjúklingar meðferðar, ýmist á sólarhringsdeild, dagdeild eða göngudeild.
 

Meðferðin er að mestu greidd af ríkinu. Frá árinu 2001 hefur þjónusta Reykjalundar og þátttaka ríkisins í kostnaði við hana verið skilgreind í þjónustusamningi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
 

Allt frá árinu 1949 hefur happdrætti SÍBS verið hornsteinn allra framkvæmda á Reykjalundi en framlög frá einstaklingum, félagasamtökum og styrktarsjóðum hafa einnig skipt miklu við uppbyggingu stofnunarinnar. Þar er skemmst að minnast landssöfnunar SÍBS árið 1998 undir nafninu Sigur lífsins sem lagði grunn að byggingu nýs þjálfunarhúss á staðnum og gerbreytti allri aðstöðu til endurhæfingar.
 

Endurhæfing er flókið ferli. Tæknilegar framfarir, ný þekking, auknar kröfur um gæði þjónustu og almenn þróun hafa stuðlað að aukinni sérhæfingu.
 

Aðdragandi þess að sjúklingar koma á Reykjalund er með ýmsu móti en skilyrði innlagnar er að beiðni um meðferð berist frá lækni.
 

Í upphafi endurhæfingar fer fram nákvæmt mat á sjúkdómsástandi eða fötlun og gerð er meðferðaráætlun sem tekur mið af þörfum hvers og eins. Þar koma við sögu læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, heilsuþjálfar, félagsráðgjafar, sálfræðingar, talmeinafræðingar, rannsóknarfólk og aðrir starfshópar.
 

Endurhæfing á Reykjalundi skiptist í níu meginsvið: hjartasvið, lungnasvið, geðsvið, gigtarsvið, verkjasvið, hæfingarsvið, taugasvið, næringar- og offitusvið og svið atvinnulegrar endurhæfingar. Starfsfólk myndar teymi innan hvers meðferðarsviðs og má í þeim finna fulltrúa allra faghópa sem starfa á Reykjalundi. Hlutverk teymanna er meðal annars að ákvarða meðferð í samráði við sjúkling og fylgja eftir markvissri endurhæfingu.

bottom of page