top of page

Acerca de

Skipulagsskrá Vísindasjóðs Lungnasamtakanna


1. gr.
Heiti.
Sjóðurinn heitir Vísindasjóður Lungnasamtakanna. Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum nr.19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá sem og reglugerð nr.
140/2008 um sama efni.


2. gr.
Heimili og varnarþing.
Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík.


3. gr.
Markmið.
Tilgangur sjóðsins er að efla íslenskar vísindarannsóknir á lungnasjúkdómum með því að
styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum lungnasjúkdóma, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.


4. gr.
Stofnandi og stofnframlag.
Stofnandi Vísindasjóðs Lungnasamtakanna eru Lungnasamtökin, kt. 670697-2079.
Heildarstofnfé sjóðsins er 3.000.000 kr. og þar af er óskerðanlegur hluti stofnframlags
1.200.000 kr.


5. gr.
Stjórn.
Stjórn Vísindasjóðs Lungnasamtakanna skal skipuð þremur mönnum til 3 ára í senn og
tveimur mönnum til tveggja ára í senn ásamt einum fulltrúa tilnefndur af stjórn Lungnasamtakanna til tveggja ára í senn. Jafnframt skal við kjör á aðalmönnum í stjórn kosinn einn
maður í varastjórn til sama tíma. Stofnandi tilnefnir fyrstu stjórn, en eftirleiðis mun fráfarandi stjórn
við lok kjörtímabils kjósa nýja stjórn auk tilnefningar Lungnasamtakanna.
Við val stjórnarmanna skal einfaldur meirihluti ráða. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
Stjórnin stýrir öllum málefnum sjóðsins og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá
til þess að skipulag og starfsemi hennar sé jafnan í réttu og góðu horfi. Undirskriftir meirihluta
stjórnar skuldbinda sjóðinn. Stjórn sjóðsins getur veitt umboð fyrir sjóðinn.
Stjórn sjóðsins mótar stefnu hans og setur úthlutunarreglur þar sem fjallað er um umsóknir,
matsferli, kynningar, skil á niðurstöðum og styrki.
Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvægar ákvarðanir má þó ekki
taka án þess að allir stjórnarmenn hafi fjallað um málið, sé þess nokkur kostur. Halda skal fundargerðabók um það sem gerist á stjórnarfundum.
Stjórnin ber ábyrgð á því að úthlutun styrkja sé í samræmi við skipulagsskrá þessa. Hún ber
ábyrgð á ávöxtun sjóðsfjár og er heimilt að fela viðurkenndum fjárvörsluaðila umsjón með fjármunum sjóðsins. Stofnfé og aðrar eigur sjóðsins skal ávaxta með tryggilegum hætti.
Stjórnin hefur aðgang að húsnæði og annarri aðstöðu á vegum Lungnasamtakanna og
nýtur aðstoðar stjórnarmanna við störf sín.


6. gr.
Fundarboðun og málsmeðferð.
Boða skal stjórnarfundi með tryggilegum hætti. Enga mikilvæga ákvörðun, t.d. staðfestingu
úthlutunar- og starfsreglna og úthlutun styrkja, má taka fyrir hönd sjóðsins nema stjórnin sé fullskipuð, eftir atvikum með aðkomu varamanns. Stjórnarmaður má ekki taka þátt í meðferð einstaks máls ef það málefni sem liggur til ákvörðunar skiptir hann verulegu máli fjárhagslega eða siðferðislega. Aðalatriði þess sem fram fer á stjórnarfundum skal færa til bókar.


7. gr.
Styrktaraðilar.
Tekjur Vísindasjóðs Samtaka lungnasjúklinga auk vaxta af stofnframlagi eru minningargjafir,
erfðagjafir, aðrar gjafir, áheit og önnur framlög sjóðnum til styrktar.
Fyrirtæki og einstaklingar geta orðið styrktaraðilar að sjóðnum.


8. gr.
Ráðstöfunarfé og styrkveitingar.
Sjóðstjórn hefur árlega til ráðstöfunar tekjur sjóðsins á liðnu starfsári, þar með taldar vaxtatekjur. Jafnframt hefur sjóðstjórn heimild til þess að verja allt að 15% af höfuðstól sjóðsins til styrkveitinga án þess þó að ganga á óskerðanlegan hluta stofnfjár, sbr. 2. mgr. 4. gr.
Stjórn sjóðsins skal auglýsa eftir umsóknum og annast styrkveitingar úr sjóðnum, sbr. 3. mgr. 5.gr.


9. gr.
Reikningsárið.
Reikningsárið er almanaksárið og er fyrsta reikningstímabil frá stofnum sjóðsins og til næstu
áramóta. Stjórn sjóðsins skal ganga frá reikningum næstliðins árs fyrir 1. maí ár hvert.
Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda/skoðunarmanni sem
skipaður er af stjórn sjóðsins. Endurskoðaðir reikningar skulu sendir Ríkisendurskoðun eigi síðar en
30. júní ár hvert fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé sjóðsins hefur verið ráðstafað á því
ári. Um reikningsskil sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem
starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.


10. gr.
Breyting skipulagskrár, slit og sameining.
Til þess að breyta skipulagskrá þessari, sameina sjóðinn öðrum sjóði eða leggja hann niður þarf
samþykki allra stjórnarmanna sjóðsins. Slíkt skal einnig borið undir sýslumanninn á Norðurlandi
vestra til samþykktar. Verði sjóðurinn lagður niður skulu eignir hans renna óskiptar til vísindarannsókna á lungnasjúkdómum eða skyldra rannsókna.


11. gr.
Staðfesting sýslumanns.
Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra á skipulagsskrá þessari.
Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa
samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.
 

 

Samþykkt á stjórnarfundi 31.10.2022

 

bottom of page