top of page

LUNGNATREFJUN

Hvað er lungnatrefjun?

Bandvefsmyndun (trefjun) í lungum (á ensku: pulmonary fibrosis) er sjaldgæft sjúkdómsástand sem getur verið af ýmsum orsökum, en langoftast er hún ekki þekkt.

Meðal þekktra orsaka eru heyryk og ýmiss konar annað ryk sem fólk andar að sér og auk þess gigtsjúkdómar.

Það sem gerist er að í stað heilbrigðs lungnavefs kemur bandvefur (trefjar). Þannig truflast loftskipti um lungun og súrefni fer hvorki inn né koltvísýringur út úr líkamanum á eðlilegan hátt.

Þetta getur leitt til öndunarbilunar.

 

Hver eru einkenni lungnatrefjunar?

Algengustu einkennin eru hósti sem oftast er þurr og mæði sem í fyrstu er mest við mikla áreynslu en getur síðan komið við litla áreynslu og jafnvel í hvíld.

Stundum fylgja almenn einkenni eins og slappleiki og lystarleysi.

Hvernig er lungnatrefjun greind?

 

Röntgenmynd af lungum vekur oftast fyrst upp grun um lungnatrefjun en tölvusneiðmynd af lungum er nákvæmari rannsókn til að greina sjúkdóminn. Einnig eru gerðar lungnamælingar, meðal annars súrefnismæling. Oft eru tekin sýni með berkjuspeglun eða skurðaðgerð til að staðfesta greiningu.

 

Hvernig er lungnatrefjun meðhöndluð?

 

Mikilvægt er að hætta reykingum. Einnig að forðast þau umhverfisáreiti sem valdið geta lungnatrefjun. Til að draga úr bandvefsmyndun og bólgu sem henni fylgir eru gefin lyf sem hafa áhrif á ónæmiskerfið.

Algengustu lyfin eru barksterar (prednisólón), en einnig eru notuð ýmis önnur lyf eins og asathíóprín og cyclofosfamíð.

 

Þá er einnig gefið súrefni ef mælingar benda til súrefnisskorts. Ef sjúkdómurinn kemst á hátt stig og svarar ekki meðferð er í vissum tilfellum gerð lungna- ígræðsla. Þær aðgerðir eru gerðar á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn.

Er hægt að lækna lungnatrefjun?

 

Ef sjúkdómurinn er greindur snemma og umhverfis- áreiti eru fundin og fjarlægð er oft hægt að koma í veg fyrir frekari skemmdir. Ef orsakir eru ekki þekktar getur sjúkdómurinn haldið áfram að versna þrátt fyrir meðferð.

 

Er lungnatrefjun arfgengur sjúkdómur?

 

Í langflestum tilvikum er lungnatrefjun ekki arfgengur sjúkdómur, en í fáeinum tilvikum er vitað um hann í fjölskyldum.

 

Hvernig er hægt að afla frekari upplýsinga um lungnatrefjun?

 

Margar vefsíður eru til um lungnatrefjun, t.d. www.pulmonaryfibrosis.org

bottom of page