top of page

BERKJUSKÚLK (Bronchiectasis)

Berkjuskúlk (Bronchiectasis) er sjúkdómur þar sem berkjur verða óeðlilega víðar og gengur þetta ástand að jafnaði ekki til baka. Berkjuskúlk getur verið staðbundið eða dreift um lungun. Sjúkdómurinn kemur fyrir bæði hjá börnum og fullorðnum og einkennist af hósta með uppgangi.

Berkjuskúlk.png

Einkenni

Stundum er hóstinn þurr og þá getur fylgt honum mæði og slappleiki. Blóðhósti getur komið fyrir, sem og brjóstverkir og surg fyrir brjósti. Berkjuskúlk einkennist af endurteknum tímabilum þar sem einkenni versna mikið og gerist það oftast vegna sýkinga. Þá fá sjúklingar aukinn hósta og uppgang sem getur þykknað og breytt um lit. Almenn einkenni geta verið til staðar, eins og slappleiki, lystarleysi og hiti.

Meðferð

Meðferð er fólgin í meðhöndlun undirliggjandi sjúkdóma, sýklalyfjum og loftvegahreinsun. Að jafnaði eru sýklalyf gefin í lengri tíma en almennt er gert við öndunarfærasýkingar. Einnig er ýmis sérhæfð meðferð í boði fyrir hluta þessara sjúklinga og ræðst af undirliggjandi orsök. Þetta bætir lífsgæði, dregur úr framþróun sjúkdómsins og fækkar versnunum.

Slímlosandi lyfjameðferð eykur líkur á að losa upp slím og dregur úr slímmyndun. Dæmi um slík lyf eru háþrýstið saltvatn (hypertonic saline) sem andað er inn í gegnum loftúðatæki, N-asetýlcystein og berkjuvíkkandi lyf. 

Loftvegahreinsun mikilvæg

Loftvegahreinsun er mikilvægur þáttur í meðferð berkjuskúlks. Með loftvegahreinsun er átt við aðferðir sem hreinsa loftvegina en eru ekki lyfjameðferð. Þær draga úr einkennum, bæta lífsgæði og draga úr tíðni versnana. Mikilvægt er að allir sjúklingar með berkjuskúlk fái þjálfun og kennslu í loftvegahreinsun. Loftvegahreinsun sem sjúklingar geta gert sjálfir felst í fyrsta lagi í stöðubundinni losun, þar sem sjúklingur lætur höfuð og efri hluta líkama liggja lægra en neðri hluta. Við það flyst slím betur nærlægt í berkjur og kemur jafnvel upp úr þeim um munn. Í öðru lagi eru notaðar svokallaðar virkar hringrásar öndunaraðferðir. Þær felast í því að hafa stjórn á öndun, æfingum þar sem andað er djúpt og æfingum þar sem beitt er hraðri útöndun. Einnig eru til tæki þar sem andað er frá sér gegn jákvæðum útöndunarþrýstingi með sveiflu (oscillation). Það hjálpar slími að færast nærlægt í berkjur og hröð útöndun með hósta kemur slími alla leið í munn.

Innöndunarsterar eru gefnir þeim sem hafa undirliggjandi loftvegasjúkdóm eins og astma og langvinna lungnateppu. Langvirk berkjuvíkkandi lyf henta þeim sem eru mæðnir, einkum við áreynslu. Bólusetningar og regluleg hreyfing er mikilvæg fyrir alla með berkjuskúlk. Reglulegt eftirlit sjúklinga með berkjuskúlk er brýnt og getur í vægari sjúkdómi, farið fram á heilsugæslu, en hjá lungnasérfræðingum í flóknari tilfellum.

OPNUNARTÍMI SKRIFSTOFU

LUNGNASAMTÖKIN

HAFA SAMBAND

Skrifstofan er opin flesta

mánudaga 11:00 - 15:00

eða samkvæmt samkomulagi

Athugið að hringja dyrabjöllunni þar sem útidyrnar eru læstar

Borgartún 28a

105 Reykjavík

Kennitala: 670697-2079

            560-4812

Ef ekki næst samband hringjum við til baka 

             

lungu@lungu.is

FYLGIST MEÐ OKKUR Á FB

  • Grey Facebook Icon
bottom of page