top of page

LUNGNAÞJÁLFUN

Sjúkraþjálfun lungnaendurhæfingar á Reykjalundi

 

Höfundur. Hlíf Garðarsdóttir, sjúkraþjálfari sviðsstjóri sjúkraþjálfunar á lungnasviði Reykjalundar

 

Vel heppnuð lungnaendurhæfing markar upphaf betri lifnaðarhátta ævilangt. Fólk með langvinna lungnateppusjúkdóma (s.s. lungnaþembu og astma) getur ekki búist við að losna við sjúkdómana, því þeir eru komnir til að vera. Þeim er því nauðsynlegt að læra að lifa með þá og aðlögunin er hlutverk lungnaendurhæfingar. Markmiðið er að halda einkennum sjúkdómanna og takmarkandi áhrifum í lágmarki. Lungnaendurhæfing byggist á samvinnu sjúklings og meðferðaraðila (m.a. sjúkraþjálfara). Nauðsynlegt er að sjúklingurinn sé sjálfur virkur þátttakandi í endurhæfingarferlinu öllu og reiðubúinn að leggja á sig tímafreka og erfiða vinnu, að öðrum kosti næst ekki árangur.

Hlutverk sjúkraþjálfara í lungnaendurhæfingu er margþætt; mat, gerð meðferðaráætlunar, meðferð og endurmat. Sjúkraþjálfari meturhver aðalvandamál lungnasjúklings eru og hvaða þættir eru takmarkandi fyrir hann. Að því búnu gerir hann tillögu um leiðir til úrbóta og setur í samráði við sjúklinginn upp meðferðaráætlun sem getur innihaldið; leikfimi, göngu, vatnsleikfimi, frjálst sund, sundkennslu, þrekhjólaæfingar, æfingar á göngubandi, tækjaæfingar, öndunaræfingar, háls- og herðaæfingar, borðtennis, boccia, stoðkerfismeðferð, slímlosandi meðferð og fræðslu. Að auki eru árstíðabundnir þjálfunarmöguleikar í boði, s.s. skíðaganga, róður og hestaferðir. Meðan á meðferð stendur er stöðugt endurmat nauðsynlegt og oft þarf að endurskoða meðferðaráætlun, m.a. með tilliti til áhuga og árangurs.

 

Helstu meðferðarþættir eru:

  • Þolþjálfun
     

Sjúklingar með langvinna lungnateppu lenda gjarnan í vítahring mæði og hreyfingarleysis, sjá mynd: Hreyfing og áreynsla valda andnauð og mæði, sem eru mjög óþægilegar tilfinningar. Viðbrögð sjúklinga eru að draga úr hreyfingu til að freista þess að losna við mæðina. Fyrst í stað minnkar mæðin reyndar en það endist mjög stuttan tíma. Ástæðan er sú að hreyfingarleysi skerðir þol og veldur vöðvarýrnun. Það leiðir til þess að minni áreynsla og hægari hreyfing en áður valda jafnmikilli og meiri mæði að fáum vikum liðnum.
Markmið þolþjálfunar er að brjóta þennan vítahring upp með því að auka hæfileikann til þess að þola meira og halda lengur út álag. Þolþjálfun er þess vegna mjög mikilvægur liður í lungnaendurhæfingu. Þolþjálfun hefur ekki áhrif á lungun heldur vöðvana og þar með talið hjartað.

Dæmi um þolþjálfunaraðferðir eru ganga, sund, leikfimi, vatnsleikfimi, hjólreiðar úti við eða á þrekhjóli, skíði, skautar, dans o.fl.

  • Styrkþjálfun
     

  • Vöðvateygjur
     

  • Fræðsla
     

  • Öndunaræfingar
     

  • Slímlosandi meðferð
     

  • Meðferð stoðkerfisvandamála
     

  • Leiðbeiningar um áframhaldandi þjálfun
     

Í styrkþjálfun er lagt endurtekið álag á vöðva til þess að auka kraft þeirra. Styrkþjálfun getur með viðeigandi æfingum styrkt hvaða vöðvahóp sem er. Fólk með langvinna lungnateppu hefur verulegt gagn af að styrkja axlargrindarvöðva og vöðva efri útlima. Aukinn vöðvastyrkur þeirra vöðvahópa skilar sér í meiri öndunargetu, sem auðveldar lungnasjúklingum margar athafnir daglegs lífs. Ef sú aðferð sem valin hefur verið til þolþjálfunar krefst ekki þátttöku efri útlima er nauðsynlegt að bæta við styrkjandi æfingum fyrir efri hluta líkamans. Dæmi um þolþjálfunaraðferðir sem ekki styrkja efri útlimi eru ganga og hjólreiðar, en dæmi um aðferðir sem styrkja efri útlimi eru sund og skíðaganga.

Í lok hvers æfingatíma er áhersla lögð á vöðvateygjur, eftir því sem við á. Markmiðið er að lengja vöðva, koma í veg fyrir vöðvastyttingar, fyrirbyggja harðsperrur og auka vellíðan.

Það skiptir mjög miklu máli fyrir lungnasjúklinga að þekkja einkenni sjúkdóma sinna og áhrifaþætti. Með því að fræðast sem mest um allar hliðar sjúkdómanna geta sjúklingar lært að forðast það versta og laða í staðinn fram betra líf með langvinna sjúkdóma. Fræðsla er því einn mikilvægasti hluti meðferðar.

Sjúkraþjálfarar á lungnasviði Reykjalundar fræða lungnasjúklinga m.a. um:

  • Líffæra- og lífeðlisfræði öndunarfæra

  • Orsakir og einkenni lungnasjúkdóma

  • Öndun og hósta

  • Stoðkerfisverki í hálsi og herðum

  • Þol- og styrkþjálfun

  •  

Sjúkraþjálfarar kenna fólki með lungnateppu æfingar til að bæta öndunarstjórn og auka útöndun og ráðleggja sjúklingum að gera þær nokkrum sinnum daglega.

Það er ekki algengt að lungnasjúklingar á Reykjalundi þurfi hjálp við slímlosun, en sumir lungnateppusjúklingar hafa mjög mikinn slímuppgang eða eru of máttfarnir til að hreinsa slím úr öndunarfærunum hjálparlaust. Sjúkraþjálfarar geta þá beitt sérhæfðum aðferðum til aðstoðar, t.d banki, hristingi, fræðslu, hóstatækni og öndunaræfingum.

Eymsli, verkir, stirðleiki og hreyfiskerðingar í hálsi og herðum eru algengur fylgikvilli langvinnra lungnasjúkdóma. Höfuðverkur er einnig algeng kvörtun. Ástæður þessara verkja eru m.a. aukið álag á aðstoðaröndunarvöðva, breytt öndunarmynstur, aflögun brjóstkassa, svefnvandamál, spenna og kvíði. Sjúkraþjálfari metur ástand sjúklings, m.a. með skoðun stoðkerfis og viðeigandi prófunum og gerir síðan áætlun um meðferð einkenna og fræðslu til sjúklings. Oft má bæta ástandið mikið og halda því þokkalegu með t.d. betri skóm, nýjum kodda, nýrri rúmdýnu, betri stól, breytingum á vinnuaðstöðu, leiðréttingu á líkamsstöðu, styrkþjálfun efri útlima, liðleikaæfingum fyrir háls og herðar og teygjuæfingum fyrir vöðva í hálsi og herðum. Í sumum tilfellum er nauðsynlegt að grípa tímabundið inn í vandamálið með sérhæfðum aðferðum sjúkraþjálfunar.

Lungnaendurhæfing er námskeið ætlað lungnasjúklingum til að kynnast og ná að tileinka sér breytta lifnaðarhætti. Nokkrar breytingar eru mikilvægastar, þar með talið að gera reglubundna hreyfingu að föstum hluta daglegs lífs. Það tekur líkamann marga mánuði að ná besta hugsanlega þjálfunarástandi (hámarks þjálfunaráhrifum) og því er ljóst að við lok lungnaendurhæfingar, sem alla jafna er 6 vikna tímabil, má enn vænta mikils árangurs af þjálfun. Áhrif þjálfunar fjara smám saman út þegar þjálfun er hætt, þess vegna skilar 6 vikna þjálfunartímabil ekki langtímaárangri ef regluleg þjálfun heldur ekki áfram. Regluleg hreyfing og hæfileg áreynsla eru jafnnauðsynleg undirstaða heilbrigðrar sálar í hraustum líkama og fjölbreyttar, næringarríkar og reglulegar máltíðir. Flestir vita að það þarf ekki mjög langan tíma á ónógu eða einhæfu fæði til að þróa einkenni vannæringar, en kannski vita ekki eins margir um sambærileg áhrif hreyfingarleysis og of lítillar áreynslu. Reglubundin hreyfing og áreynsla eru þannig ekki einungis góðar fyrir þá sem nenna að hreyfa sig, heldur alger nauðsyn öllu fólki sem vill bæta og/eða viðhalda andlegu- og líkamlegu heilbrigði sínu.

 

© Copyright 1999 - 2002 Doktor.is
All rights reserved

bottom of page