Sarklíki – Sarcoidosis
Sarklíki er bólgusjúkdómur þar sem bólguhnúðar myndast í einu eða fleiri líffærum líkamans. Orsök er óþekkt. Leitt hefur verið líkum að því að einstaklingurinn andi að sér einhverju í andrúmslofti sem valdi síðan ræsingu á ónæmiskerfinu og bólgumyndun. Tengsl hafa fundist við bakteríur, skordýraeitur, kísil og önnur lífræn og ólífræn efni, en ekkert er sannað í þeim efnum.
Sjúkdómurinn byrjar oftast í eitlum við lungu, en getur síðan borist til nánast hvaða líffæra sem er. Mismunandi er eftir einstaklingum og kynþáttum hvernig sjúkdómsmyndin er, þ.e. í hvaða líffærum bólgurnar eru og hversu alvarlegur sjúkdómurinn er. Greining sjúkdómsins er áreiðanlegust ef hægt er að ná sýni úr bólguhnúðum og kallast það vefjagreining. Oft er hægt að ná sýni úr eitlum með svo kallaðri berkjuómspeglun, en þá er gerð berkjuspeglun í léttri svæfingu og sýni tekið úr eitlum í brjóstholi. Einnig er mögulegt að taka nálarsýni úr lifur eða nýrum og oft er greining fengin með því að taka sýni úr húð. Í sumum tilfellum er greining gerð með því að skoða myndrannsóknir og blóðprufur og setja þær í samhengi við einkenni þau sem einstaklingurinn hefur.
Íslensk rannsókn
Hér á eftir mun ég fjalla um niðurstöður rannsóknar sem gerð var hér á landi. Þar voru skoðuð öll þau tilfelli þar sem vefjasýni liggur til grundvallar, allt frá árinu 1981 til 2016. Þar kom í ljós að fjöldi nýrra tilfella greindum með vefjasýni er um 15 á ári á Íslandi. Konur eru í vægum meirihluta þessa hóps og þær eru eldri við greiningu en karlar, eða 53ja ára miðað við 48 ára hjá körlum.
Einkenni sjúkdómsins
Langalgengustu einkenni sarklíkis á Íslandi eru frá öndunarfærum, s.s. mæði, hósti, uppgangur með slími og verkur í brjóstkassa. Næst koma einkenni eins og óeðlileg þreyta og slappleiki, þá hiti, þyngdartap, útbrot á húð og sviti eða nætursviti. Liðverkir eru algengir og þá oftast í stórum liðum, eins og ökklum, hnjám, mjöðmum eða úlnliðum. Bólgur í himnum augans eru einkennandi fyrir þennan sjúkdóm og er náin samvinna á milli augnlækna og þeirra lækna sem meðhöndla sarklíki. Einkenni frá augum geta verið breyting á sjón eða verkir í augum.
Mælt er með því að einstaklingar með sarklíki fari í skoðun hjá augnlækni einu sinni á ári. Vert er að geta einkennandi bólguhnúða í húð sem koma oft fyrir í þessum sjúkdómi og kallast erythema nodosum sem eru rauðfjólublá upphleypt og aum útbrot oftast á sköflungum. Loks má nefna einkenni frá hjarta eða taugakerfi sem eru afar sjaldgæf hér á landi.
Ekki tengsl við reykingar
Ekki fundust tengsl á milli reykinga og sarklíkis á Íslandi. Ekki var hægt að sýna fram á tengsl á milli mismunandi starfa einstaklinga og þess að fá sarklíki. Þannig fannst ekki neinn ákveðinn umhverfisþáttur sem orsakað gæti sarklíki á Íslandi. Hér á landi er dánartíðni vegna sarklíkis afar lág.
Meðferð
Í völdum tilfellum er hægt að fylgjast með gangi sjúkdómsins og engrar meðferðar er þörf og gengur sjúkdómurinn yfir á nokkrum mánuðum. Ákvörðun um meðferð fer eftir ýmsum þáttum og er markmið meðferðar að hindra skemmdir í líffærum vegna bólguhnúða. Fremst í flokki er sterameðferð og þarf oft að taka stera um langan tíma, nokkra mánuði til nokkur ár. Oft er öðru lyfi bætt við sem heitir Methotrexat. Í völdum tilfellum er notast við líftæknilyf, oftast lyf sem heitir Flixabi og er gefið í æð á nokkurra vikna fresti. Loks má nefna að yfirleitt gengur meðferð vel og einkenni minnka mikið eða jafnvel hverfa. Viss hópur þarf lífslanga lyfjameðferð, en hún heldur einkennum niðri. Lífsgæði þessara sjúklinga eru góð og einstaklingur með sjúkdóminn sarklíki getur lifað eðlilegu lífi á réttri meðferð og í góðu eftirliti.