top of page
Search

SLS gefur lungnadeild A6 sírita með CO2 mæli

Updated: Oct 28, 2021

Samtök lungnasjúklinga gáfu á dögunum lungnadeild A6 Landspítala sírita (e. monitor) með koltvísýringsmæli af nýjustu og fullkomnustu gerð.


Síritinn er mjög þægilegur í notkun, með snertiskjá, og hægt er að velja hverju á fylgjast með, eftir þörfum hverrar deildar og hvers sjúklings. Sem dæmi er hægt að fylgjast með blóðþrýstingi, púls, hjartalínuriti, súrefnismettun og koltvísýringi. Hægt er að sjá niðurstöður á skjánum inni á herbergi sjúklings, á öðrum sambærilegum skjá í öðru herbergi, inni á vakt, eða jafnvel í síma. Með því að ýta á takka á síritanum er á einfaldan hátt hægt að skoða hvað hefur verið að gerast hjá viðkomandi sjúklingi s.l. 30 mínútur Tækið sendir allar niðurstöður sjálfkrafa í rafræna sjúkraskrá sem stuðlar að bættu öryggi sjúklinga. Tækið er afar meðfærilegt og getur fylgt sjúklingi, t.d. ef hann þarf að fara í rannsóknir utan deildarinnar. Þá sjá læknar og hjúkrunarfræðingar allar mælingar, jafnvel þegar sjúklingurinn er ekki á deildinni, sem einnig eykur öryggi.

Einn af þeim íhlutum sem valdir voru með þessu tæki, er mæling á koltvísýringi í útöndunarlofti. Meginhlutverk lungnanna er tvíþætt, annars vegar að taka upp súrefni og hins vegar að losna við koltvísýring úr líkamanum. Koltvísýringur getur safnast upp hjá sjúklingum með lungnasjúkdóma og því er mæling á koltvísýringi bjá bráðveikum á lungnadeild A6 mikilvæg viðbót og getur fækkað blóðprufum eins og blóðgösum.


Formleg afhending fór fram í gær, 16. febrúar 2021, að viðstöddum tveim stjórnarmönnum SLS, þeim Andrjesi og Eyjólfi, en viðtakendur voru Sif Hansdóttir, yfirlæknir lungnalækninga og Guðrún Árný Guðmundsdóttir, deildarstjóri lungnadeildar A6. Tækið var afhent í janúar og starfsmenn fá kennslu á tækið í næstu viku, enda mikill áhugi á að fullnýta alla þá möguleika sem tækið hefur upp á að bjóða.


Hér má sjá nokkrar myndir í viðbót


276 views

Recent Posts

See All
bottom of page