Forsetaheimsókn

Ef þú vilt svar við þessari spurningu ýttu þá á takkann -------------------->

OPNUNARTÍMI
SKRIFSTOFU
ALLA MÁNUDAGA 
12 - 15
Munnharpa.jpg
ÖNDUNAR
ÆFINGAR MEÐ
MUNNHÖRPU
 
KLIKKIÐ Á MYND

Fréttablað

Nú er blaðið okkar komið úr prentun og ætti að detta inn um lúguna hjá ykkur í næstu viku. En hægt er að lesa blaðið hérna á síðunni undir flipanum fréttablöð.

Rafrænir viðburðir.

Kæru félagar, vonum að þið hafið það gott.

Okkur datt i hug að senda linka á viðburði sem eru að fara fram rafrænt á netinu þessa tímana, ef það væri eitthvað sem þið hefðuð áhuga og gaman að.

Hérna eru nokkrir, við bætum við þegar við finnum fleiri, ef þið vitið um eitthvað skemmtilegt megið þið endilega senda okkur tölvupóst á lungu@lungu.is

Jólatónleikar Siggu Beinteins verða á Eldborgarsviðinu föstdagskvöldið 4.desember og laugardagskvöldið 5. desember. Tónleikarnir verða fyrir tómum sal en verða í beinni útsendingu á leigum Sjónvarps Símans og Vodafone. Einnig verður hægt að kaupa streymi inni á tix.is.

Inná tix.is verða örugglega fleiri streymi/ ræfrænir atburðir.

https://tix.is/is/event/10230/jolagestir-bjorgvins-2020/

https://fb.me/e/42kkFw1uw

https://fb.me/e/35pIRMoeY

Sögur útgáfa er með skemmtilega kynningu á bókunum sinum á facbook síðu sinni.

Eins er Bókasafn Garðabæjar með upplestur úr bókum á facebook síðu sinni, og Bókasafn Hafnarfjarðar einnig.

Nú er bara um að gera að njóta þess sem hægt er að gera.

 

Kveðja stjórnin

Tilkynning

Kæru félagar, vonum að allir séu við góða heilsu og líði vel. Eins og þið vitið þá höfum við ekki getað haldið félagsfund síðan í mars. Við munum halda fund og láta ykkur vita við fyrsta tækifæri og um leið og það verður óhætt fyrir okkur að hittast. Vonum að það verði fyrr en seinna.

Við erum að leggja lokahönd á veglegt fréttablað sem kemur út í nóvember og vonum við að það verði skemmtileg og fróðleg lesning. Við erum við símann og í tölvupóstssambandi ef það er eitthvað sem þið viljið ræða.

Kveðja

Stjórnin

Súrefnissía

 

 

Vorum beðin um að auglýsa InogenOne G3 súrefnissíu til sölu, keypt í Donnu 2018.

Allar upplýsingar veitir Hjalti í síma 462 1079 eða 862 1079.

Stjórn Samtaka lungnasjúklinga starfsárið 2020-2021.

Stjórn Samtaka lungnasjúklinga starfsárið 2020-2021. Eyjólfur Guðmundsson, Gunnhildur Hlöðversdóttir varaformaður, Andrjes Guðmundsson, Ólöf Sigurjónsdóttir, Ragnhildur Steingrímsdóttir, Aldís Jónsdóttir formaður, og Kristín Eiríksdóttir.

Heiðursfélagi

 

 

Á aðalfundi Samtaka lungnasjúklinga 14. september 2020, var Brynja D Runólfsdóttir kjörin heiðursfélagi samtakanna

Sundleikfimi

Sæl öll

Fengum langþráð símtal í gær frá starfsmanni sundlaugar Sjálfsbjargar í Hátúni 12.

Þar hefur verið samþykkt að heimilt verði að nota súrefni í lauginni.

Þetta eu miklar gleðifréttir fyrir okkur.

Súrefnisþegar verða sjálfir að koma með sína kúta og langa slöngu.

Þetta gildir um skipulagða þjálfun í hóp eða einstaklingar geta farið sjálfir í laugina og gert sínar æfingar.

Ef þarf að hafa með sér aðstoðarmann þarf sá að vera af sama kyni.

Það eru einhverjir hópar að æfa þar undir leiðsögn sjúkraþjálfara og okkur skildist að einhver pláss væru laus.

Opnunartímar fyrir einstaklinga til að koma sjálfir og gera sínar æfingar án sjúkraþjálfara eru.

Mánudagar 8.30-12

 

Þriðjudagar 8.30-12

 

Miðvikudagar 8.30-14

 

Fimmtudagar 8.30-12

 

Föstudagar 8.30-11

 

Svo vonum við að fleiri sundlaugar fylgi í kjölfarið.

 

Kveðja stjórnin

Aðalfundur 2020.

Sælir kæru félagar,

Þá er stefnt á aðalfund Samtakana þann 14. september 2020 kl. 17:00 að þessu sinni verður hann haldinn í þingsal 2 á Hótel Natura ( Hótel Loftleiðum) Nauthólsvegi 52, 102 Reykjavík.

Þessi staður er valinn til að virða 2 metra regluna, andlitsgrímur, hanskar og spritt verða í boði.

Vinsamlegast mætið EKKI  ef þið:

a.  Eruð í sóttkví eða hafið verið erlendis sl. 14 daga.

b. Eruð í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).

c.  Hafið verið í einangrun með staðfest Covid-19 smit og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.

d.  Eruð með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang ofl.).

 

Kveðja Stjórnin

Tilkynning.

Kæru félagar, vonum að allir séu við góða heilsu og líði vel.

 

Stjórnin hefur ályktað að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu hefur verið erfitt með að halda aðalfund Samtaka lungnasjúklinga. Nú stendur til að reyna að halda aðalfund um miðjan september næstkomandi. Dagsetning og fundarstaður verður auglýstur síðar.

 

Varðandi vetrardagskrá Samtakanna þá verður ekki gefin út formleg dagskrá, en stefnum á að halda fundi eftir ástandi í þjóðfélaginu. Þeir verða auglýstir síðar.

kveðja,

Stjórnin

Gjöf til súrefnisþjónustunnar.

​Samtökin færðu súrefnisþjónustunni á A3 tvo súrefnismettunarmæla að gjöf.

Reykjavíkurmaraþon

Viljum minna alla þá sem ætla að taka þátt í Reykjavikurmaraþoninu að hægt er að hlaupa fyrir Samtök lungnasjúklinga. Við erum þakklát fyrir allan þann stuðning sem við fáum.

Smellið á myndina.

Forstjóri Reykjalundar.

 

 

Pétur Magnússon hefur verið ráðinn forstjóri Reykjalundar endurhæfingarmiðstöðvar SÍBS frá og með 1. júní næstkomandi. Hann tekur við starfinu af Önnu Stefánsdóttur sem hefur verið starfandi forstjóri stofnunarinnar.  

Pétur er lyfjafræðingur að mennt og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á mannauðsstjórnun. Hann hefur stýrt Hrafnistuheimilunum síðastliðin 12 ár.

Öndunaræfingar.

 

 

Hérna er hægt að nálgast myndband af öndunaræfingum til að auka lungnarúmmál.

Smellið á myndina.

Leiðbeiningar fyrir einstaklinga vegna COVID-19

 

 

Leiðbeiningar fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu

Þetta skjal verður uppfært eftir því sem við á og nýjar upplýsingar koma fram,

en í síðasta lagi eftir 2 vikur, eða 18. maí 2020.

Smellið á myndina.

Aðalfundur

Kæru félagar, óskum ykkur gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.

 Stjórnin hefur samþykkt að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu að aðalfundur Samtaka lungsjúklinga , sem fyrirhugaður var 11. maí 2020, verður frestaður um óákveðinn tíma og verður auglýstur síðar.

Vonum að öllum heilsist vel

kveðja,

Stjórnin.

Kveðja frá Elizu Reid forsetafrú og verndara Samtaka lungnasjúklinga.

 

 

Ég hugsa hlýtt til ykkar þessa erfiðu og mæðusömu daga. Við verðum öll að standa saman, verjast veirunni saman. Framar öllu þurfum við að vernda fólk sem er veikt fyrir eða í áhættuhópi. Einangrun er árangursrík leið til þess en auðvitað er leitt að geta ekki hitt aðra, fengið gesti í heimsókn og notið þess að vera á mannamótum. Tæknin kemur hér að einhverju leyti til bjargar og ég vona að þið getið stuðst við hana til að tengjast öðrum, ekki síst ættingjum og vinum.

Sem verndari Samtaka lungnasjúklinga veit ég að þar leitar fólk ýmissa leiða til að koma upplýsingum á framfæri. Ég þakka fyrir að geta sent ykkur öllum þessa kveðju mína og hlakka til að hitta ykkur á nýjan leik þegar við höfum unnið bug á veirunni skæðu. Ég sendi ykkur öllum kærar kveðjur og fjölskyldum ykkar sömuleiðis. Einnig færi ég heilbrigðisstarfsfólki hugheilar þakkir. Gangi ykkur öllum vel

Æfingar

Hér eru háls og herðar æfingar og æfingar með teygju.

Smellið á myndina.

Ráðleggingar vegna astma og COVID

 

 

Ráðleggingar vegna astma og COVID frá  Dóru Lúðvíksdóttur Sérfræðing í lungna- og ofnæmissjúkdómum og formanni Félags íslenskra lungnalækna.

Einstaklingar með astma og sérstaklega þeir sem hafa alvarlegan astma eru í nokkurri aukinni áhættu á fylgikvillum vegna COVID 19.

 

Hve mikil sú áhætta er, er ekki nákvæmlega vitað á þessari stundu

 

-Mikilvægt er að einstaklingar með astma haldi áfram að nota innöndunarlyfin sín meðan á COVID 19 faraldrinum stendur.

 

-Það er einnig sérstaklega mikilvægt að hætta ekki að nota innöndunarstera eða prednisolonkúra skv. ráðleggingum meðhöndlandi læknis.

 

-Að hætta á innöndunarsterum getur haft í för með sér versnun á astma og að taka ekki prednisolonkúra við alvarlegar versnanir á astma skv læknisráði getur verið varasamt og leitt til enn frekari versnunar.

 

-Mikilvægt er að hætta ekki lyfjameðferð vegna astma nema í samráði við sinn lækni

 

-Það er einnig mikilvægt að meðhöndla versnun á astma eins og ákveðið hefur verið í samráði við þinn lækni og leita læknisaðstoðar ef þarf.

 

-Einstaklingar með alvarlegan astma sem eru á meðferð með líftæknilyfjum eiga að halda áfram á líftæknilyfjameðferð eins og áður ásamt sínum innöndunarlyfjum meðan á COVID 19 faraldrinum stendur.

 

Þessar upplýsingar verða uppfærðar ef nýjar upplýsingar birtast um astma og COVID 19.

Nánari upplýsingar má finna með því að smella á myndina.

Æfingar

Hérna eru nokkrar æfingar til að gera heima.

Endilega ef með þarf að nota léttari útgáfuna og færri endurtekningar í byrjun.

Gangi ykkur vel.

Smellið á myndina.

Félagsfundur 6. apríl

Í ljósi aðstæðna fellur félagsfundurinn niður sem var fyrirhugaður mánudaginn 6 apríl.

Farið vel með ykkur.

Látum fylgja kvæði frá félagsmanni okkar.

Corona með kraft og þor

á ýlsku hún víst lumar.

Hún fer að róast er kemur vor

og deyr svo seint í sumar.

Samkomubann

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur tímabundið í fjórar vikur frá og með næsta mánudegi til að hægja á útbreiðslu COVID-19.

Þar er átt við viðburði þar sem fleiri en hundrað manns koma saman og ná takmarkanirnar til landsins alls. Auk þess þarf að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum á öllum viðburðum.

Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar sem hófst klukkan ellefu.

Smellið á myndina.

Frá Gunnari Gunnarssyni lungnalækni.

COVID-19 og lungnasjúkdómar

Sýking með SARS-COV-2 veirunni veldur COVID-19 sjúkdómi. Veiran veldur sýkingu í efri hluta öndunarfæra sem eru nefhol og kok og hjá sumum í neðri öndunarfærum sem eru berkjur og lungnablöðrur.

Þess vegna hefur fólk með langvinna lungnateppu verið skilgreint sem sérstakur áhættuhópur vegna COVID-19 sýkinga. Almennt má gera ráð fyrir að þetta eigi við um alla lungnasjúkdóma nema þá vægasta form til dæmis astma sem ekki gefur dagleg einkenni. Reykingar eru líka áhættuþáttur.

Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir sýkingu? Embætti Landlæknis gaf út ítarlegar leiðbeiningar 7. mars 2020 sem gott er að lesa.

Smellið á myndina hér til hliðar

Það er mikilvægt að forðast sýkingu með öllum ráðum og fara enn varlegar en aðrir: Það gildir eins og fyrir aðra að: þvo hendur oft og vel á réttan hátt; forðast að snerta andlitið áður en maður þvær og þurrkar sér um hendurnar;, sótthreinsa yfirborð sem maður snertir oft; ekki deila með öðrum mat, gleraugum, handklæðum, áhöldum o.s.frv..; hósta í olnbogabótina eða í klút; forðast alla sem eru með einkenni um öndunarfærasýkingu; forðast fjölmenna staði (ferðalög, tónleika, bíó, almenningssamgöngur) og loks ef þú ert lasinn...vertu þá heima!

EF ÞÚ ERT MEÐ LUNGNASJÚKDÓM:

-undirbúðu þig vel ef til þess kæmi að þú þyrftir að fara í sóttkví eða einangrun.

-passaðu að eiga nægar birgðir af öndunarfæralyfjum og öðrum lyfjum sem þú tekur reglulega. Hugsaðu hvað þú þarft að eiga mikið fyrir næstu 4 vikur. Taktu öll lyf eins og þér er ráðlagt. Ekki hætta að taka ónæmisbælandi lyf nema í samráði við lækni. Hafðu samráð við þinn lækni hvort þú eigir sýklalyf og stera heima til að bregðast við versnunum.

- pantaðu mat á netinu ef þú vilt ekki fara út að versla

-hættu að reykja og fáðu ráð til þess og lyf ef þarf

-hreyfðu þig reglulega. Ef þú vilt ekki fara í þína reglulegu líkamsþjálfun skaltu nýta þér leikfimi í útvarpi eða sjónvarpi og þætti sem hægt er að nálgast á Netinu. Ef þú treystir þér til og veður leyfir ættir þú að ganga úti.

-ef þú færð flensulík einkenni (háan hita, hósta, öndunarerfiðleika auk vöðvaverkja), þá er mjög mikilvægt að þú hafir samband við lækni og/eða símanúmer 1700. Hafðu tilbúin símanúmer hjá þínum lækni og/eða hjúkrunarfræðingi og vertu með rafrænan aðgang að heilsuvera.is. Algengt er að lungnasjúklingar fái versnanir á sínum sjúkdómi. Hvernig er hægt að greina á milli? Versnunum á undirliggjandi lungnasjúkdómi fylgja sjaldnast hár hiti og vöðvaverkir sem gæti frekar verið COVID-19.

-ef þú býrð ein/einn vertu þá viss um að einhver sem þú treystir viti að þú ert með lungnasjúkdóm og geti aðstoðað þig ef þú veikist og þarft á hjálp að halda

Gangi þér vel!

Leiðbeiningar fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri sýkingu nýrrar kórónaveiru (COVID-19)

Smellið á myndina.

Leiðbeiningar um handþvott

Smellið á myndina til að sjá myndbandið.

Frá sóttvarnalækni

Sóttvarnalæknir beinir því til félagasamtaka og félaga sjúklinga og/eða aðstandenda að koma eftirfarandi skilaboðum um smitvarnir vegna kórónaveiru (COVID-19) á framfæri til þeirra sem málið varðar:

Gripið hefur verið til margvíslegra varúðarráðstafana að undanförnu til að hefta útbreiðslu COVID-19 kórónaveirunnar hér á landi. Veirunnar varð fyrst vart í Kína í lok desember síðastliðnum og varð þar að faraldri. Síðan hefur hún breiðst nokkuð hratt til annarra landa og hér á landi hefur greinst smit hjá nokkrum einstaklingum sem allir höfðu verið í útlöndum.

Einkenni þeirra sem veikjast í kjölfar smits líkjast helst inflúensusýkingu, þ.e. hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta. Flestir sem smitast finna aðeins fyrir vægum einkennum og jafna sig fljótt. Ekki verður þó horft fram hjá því að veiran getur valdið alvarlegum veikindum og í verstu tilfellum reynst lífshættuleg. Þess vegna er mjög mikilvægt að allir leggist á eitt til að hefta útbreiðslu og fylgi í einu og öllu leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda um sóttvarnir.

Heilbrigðisyfirvöld beita margvíslegum leiðum til að koma upplýsingum og leiðbeiningum til almennings á framfæri sem víðast. Með þessu bréfi er óskað eftir liðsinni ykkar sem það fáið við að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri við félagsmenn ykkar og skjólstæðinga:

• Gæta vel að hreinlæti, þvo hendur reglulega með sápu og nota handspritt. Forðast snertingu við augu, nef og munn. • Hósta og hnerra í krepptan olnboga eða í pappír þegar um kvefeinkenni er að ræða.

• Forðast náið samneyti við einstaklinga með hósta og almenn kvefeinkenni. • Sýna aðgát í umgengni við algenga snertifleti á fjölförnum stöðum, s.s. handrið, lyftuhnappa, snertiskjái, greiðsluposa og hurðahúna.

• Sleppa handaböndum og faðmlögum og heilsa fremur með brosi.

Meðfylgjandi er einnig leiðbeiningar á veggspjaldi sem má prenta út og hengja upp.  Ef einstaklingur finnur fyrir veikindum og óttast að um smit af völdum kórónaveiru sé að ræða á hann að hringja í símanúmerið 1700 til að fá nánari upplýsingar. Ekki mæta á bráðamóttöku eða á heilsugæslustöð nema að fengnum ráðleggingum í síma

Á vef embættis landlæknis www.landlaeknir.is eru birtar ítarlegar leiðbeiningar til almennings og nýjustu upplýsingar af kórónaveirunni eftir því sem þörf krefur.

Samhæfingarstöð almannavarna

Smellið á myndina 

COVID 19 vírus

Til upplýsinar vegna COVID 19 vírusins.

Til að komast á linkinn smellið á myndina

Félagsfundur mánudaginn 2. mars 2020

Þá er komið að næsta félagsfundi, mánudaginn 2. mars 2020 kl.16:00 -18:00.

Í SÍBS húsinu í Síðumúla 6 á annari hæð. Lyfta er í húsinu.

Svavar Knútur söngvaskáld kemur og skemmtir okkur.

Byrjum með spjalli og kaffi og með því kl. 16:00.

Vonumst til sjá ykkur sem flest.

 

Félagsfundur mánudaginn 3. febrúar 2020 kl. 16:00-18:00

Taka tvö !

Þá er komið að næsta félagsfundi, mánudaginn 3.febrúar 2020 kl.16:00 -18:00 í SÍBS húsinu í Síðumúla 6 á annari hæð.

Lyfta er í húsinu.

Sveindís Anna Jóhannsdóttir félagsráðgjafi kemur og fræðir okkur um ýmis réttindi varðandi Sjúkratryggingar og Tryggingarstofnun. 

Og mun fyrirlesturinn hefjast kl.17:00 en byrjum með spjalli og kaffi og með því kl.16:00.

Vonum að sjá ykkur sem flest.

Mánudagsfundi frestað.

Vegna ófærðar og veðurspár höfum við áhveðið að fella niður félagsfundinn sem átti að vera i dag kl 16. Skynsemin segir að betra sé að halda sig heima.

Félagsfundur mánudaginn 13. janúar 2020

Félagsfundur mánudaginn 13. janúar 2020 kl. 16:00-18:00

Gleðilegt nýtt ár öllsömul.

Þá er komið að fyrsta félgasfundi, á nýju ári, mánudaginn 13. janúar 2020 kl. 16:00 -18:00. í SÍBS húsinu Síðumúla 6 á annari hæð. Lyfta er í húsinu.

Breyting frá áður auglýstri dagskrá.  Sveindís Anna Jóhannsdóttir félagsráðgjafi mætir og fræðir okkur um ýmis réttindi varðandi Sjúkratryggingar og Tryggingarstofnun. Og mun fyrirlesturinn hefjast kl. 17:00, en byrjum með spjalli og kaffi og með því kl. 16:00.

 

Vonum að sjá ykkur sem flest.

Vísur

Okkur bárust þessar flottu vísur og urðum bara að deila þeim.

Hafið það gott um áramótin og sjáumst hress á nýju ári.

Eftir 1 fund minn hjá Lungnasamtökunum 4 nóv 2019

1.

 

Mikið ég átti góða stund

Á fyrsta fundi mínum

Vissi að þetta létti lund

Því gleði oft við tínum

 

2.

Kvöldstund samtakanna 4 des 2019

Hér ég komin er og co

Því flest við förum saman

Hér við spilum jólabingó

Og höfum að því gaman

3.

Eftir jólabingó 2019

Í samtökum þessum mjög gott er

Þar vinir koma saman

Ég seiji bara eins og er

Þar er gleði,glens og gaman

4.

Að vísum gaman þykir mér

Þá oft ég nyður pári

Góðir vinir aftur hér

Saman á nýju ári

M.B.E

Áramótakveðja frá Félagi íslenskra lungnalækna.

Félag íslenskra lungnalækna hvetur landsmenn til að sýna einstaklingum með lungnasjúkdóma tillitssemi um áramót. Mengun frá flugeldum getur valdið öndunarfæraeinkennum hjá einstaklingum sem eru viðkvæmir í öndunarfærum s.s. hósta, mæði og andþyngslum og skerðir lífsgæði þeirra og möguleika til að taka þátt í áramótagleði.

Hvað getur fólk gert?

1.Dregið úr magni flugelda sem skotið er upp og valið aðra möguleika s.s. rótarskot í stað flugelda.

2. Forðast að skjóta upp flugeldum í íbúðahverfum.

3. Notað opin afmörkuð svæði til að skjóta upp flugeldum.

4. Forðast stórar tertur og önnur skotfæri sem valda mikilli mengun við jörð

Hvað getur fólk með lungnasjúkdóma gert?

1. Haft glugga og hurðir lokaðar svo mengun berist ekki inn.

2. Sett rök handklæði við opnanlega glugga og hurðir. Hækka hitastig inni. Þetta dregur úr líkum á að mengun berist inn

3. Leitað ráða á heilsugæslu um lyfjanotkun og haft innöndunarlyf við hendina

  

Hvað geta sveitarfélög gert?

1. Hvatt einstaklinga til að skjóta ekki upp flugeldum í íbúðahverfum

2. Boðið upp á afmörkuð svæði til að skjóta upp flugeldum

Jólakveðja

Stjórn Samtaka lungnasjúklinga óskar félagsmönnum, fjölskyldum þeirra og velunnurum samtakanna gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Kærar þakkir fyrir góðar samverustundir og stuðninginn á árinu.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest á nýju ári í félagstarfinu með okkur.

Næring einstaklinga með lungnasjúkdóm.

Hérna er linkurinn frá Guðrúnu Jónu næringafræðingi. 

Smellið á myndina.

Aukning á ferðasúrefnissíum.

Vorum á blaðamannafundi hjá heilbrigðisráðherra í dag, og erum með þær gleðifréttir að auka á ferðasúrefnissíum fyrir allt að 250 manns á næsta ári.

Við hófum baráttuna á málþingi í maí 2017 þá með 70 síur í dag eru þær 120, þannig að þetta eru góðar fréttir fyrir okkur.

Súrefnissíur

​Vorum beðin um að auglýsa þessar súrefnissíur til sölu, allar frekari upplýsingar gefur Embla í síma 778 0532.

Jólabingó Samtaka lungnasjúklinga og Hjartaheilla

Jólabingó verður haldið miðvikudaginn 4.desember kl 19:30. Bingóið verður haldið í SÍBS húsinu Síðumúla 6 á annari hæð og það er að sjálfsögðu lyfta í húsinu.

Allir fá eitt frítt bingóspjald, á meðan byrgðir endast og það er fullt af flottum vinningum.

Boðið verður upp á jólaöl/ kaffi og smákökur í hálfleik.

Allir félagsmenn og fjölskyldur þeirra eru velkomin.

Hlökkum til að sjá ykkur.

ELF/ERS ráðstefna

​Aldís Jónsdottir formaður Samtaka lungnasjúklinga og Dóra Lúðviksdóttir lungnalæknir við bás sem lungnasamtökin voru með á ELF/ERS ráðstefnunni í Madrid, sem haldin var í september síðastliðnum.

Félagsfundur mánudaginn 4. nóvember 2019

Þá er komið að næsta félgasfundi, mánudaginn 4 nóvember kl.16:00 -18:00

Fyrirlesari að þessu sinni er Thelma Rún Rúnarsdóttir næringarfræðingur og ræðir um næringu og vítamín fyrir lungnasjúklinga.

Fundinum verður streymt í gegnum facebooksíðu samtakanna.

Það er möguleiki að senda fyrirspurn í gegnum messenger. Streymið byrjar kl. 17.00

Veitingar verða frá kl 16:00.

Fundurinn er að venju í SÍBS húsinu í Síðumúla 6 á annari hæð. Lyfta er í húsinu.

Vonum að sjá ykkur sem flest.

Félagsfundur mánudaginn 7. október 2019

Jæja nú er komið að næsta félagsfundi, mánudaginn 7 október kl. 16-18.

Byrjum kl. 16:00 með því að skrafa saman og fá okkur kaffi og með því.

Um kl. 17:00, þá koma þær Hildur Birna og María Guðmundsdóttir uppistandarar út hópnum Bara Góðar og skemmta okkur 

Fundurinn er að venju í SÍBS húsinu í Síðumúla 6 á annari hæð. Lyfta er í húsinu

Það kostar ekkert að koma til okkar á fundi og við vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Munið jafnvel eftir grípa með ykkur munnhörpurnar.

 

Kveðja stjórnin.

Vetrarstarf 2019 - 2020

2. september    - Þorbjörg Sóley Ingadóttir lungnahjúkrunarfræðingur kemur og kynnir fyrir

                              okkur  A3 göngudeild lungnasjúklinga.

7. október         - Hildur Birna og María Guðmundsdóttir uppistandarar úr hópnum Bara Góðar

                              koma og skemmta okkur.

4. nóvember     - Telma Rún Rúnarsdóttir næringarfræðingur kemur og ræðir um næringu og

                              vítamín fyrir lungnasjúklinga.

4. desember      - Jólabingó með Hjartaheill í Síðumúlanum kl. 19.30

13. janúar          - Bryndís H. Sigurðardóttir lungnasjúklingur segir okkur reynslusögu sína að

                               leiðinni til betra lífs með hreyfingu.

3. febrúar           - Sveindís Anna Jóhannsdóttir félagsráðgjafi fræðir okkur um ýmiss réttindi.

2. mars               - Svavar Knútur söngvaskáld kemur til okkar og skemmtir okkur.

6. apríl                - Grillvagninn mætir á svæðið með gómsætan mat.

11. maí               - Höldum við aðalfund Samtaka lungnasjúklinga.

Fundirnir eru opnir öllum félagsmönnum okkar og eru þeim að kostnaðarlausu. Fundirnir byrja alltaf kl. 16 og byrjum við á því að fá okkur góðar veitingar og spjalla saman og tökum jafnvel upp munnhörpurnar. Fyrirlestrarnir byrja svo um kl. 17. Athugið að jólabingóið byrjar kl. 19:30 

Fundirnir okkar eru haldnir í SÍBS húsinu í Síðumúla 6 á annari hæð og það er lyfta í húsinu.

Vonandi sjáum við ykkur sem flest.

Félagsfundur 2.september

Félagsfundur mánudaginn 2. september 2019 kl. 16:00-18:00

 

Sælt verið fólkið!

 

Þá erum við hjá Samtökum lungnasjúklinga mætt aftur til leiks og ætlum að hafa fyrsta félagsfund vetrarins mánudaginn 2. september kl. 16-18.

 

Byrjum kl. 16:00 með því að skrafa saman og fá okkur kaffi og með því.

Um kl. 17:00 kemur til okkar, Þorbjörg Sóley Ingadóttir lungnahjúkrunarfræðingur og kynnir fyrir okkur starfsemi A-3 Göngudeild lungnasjúklinga.

 

Fundurinn er að venju í SÍBS húsinu í Síðumúla 6 á annari hæð. Lyfta er í húsinu  Það kostar ekkert að koma til okkar á fundi og við vonumst til að sjá ykkur sem flest.

 

Munið eftir grípa með ykkur munnhörpurnar. 

Kveðja stjórnin.

Maraþon

Takk takk! Kæru hlauparar sem hlupuð fyrir samtökin okkar í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn.

Og innilegar þakkir til allra þeirra sem hétu á þessa frábæru hlaupara.

Við erum ótrúlega þakklát.

Heimsleikar líffæraþega

WTG 2019 - Heimsleikar líffæraþega fóru fram í Newcastle Gateshead í Englandi í vikunni.

Héðan frá Íslandi fóru tveir keppendur þeir Hjörtur Lárus Harðarson lungnaþegi og Kjartan Birgisson hjartaþegi. Kepptu þeir báðir í golfi, bæði í einstaklings og liðakeppni.

Þeir stóðu sig mjög vel. Og voru verðugir fulltrúar okkar.

FIT & RUN

SÍBS Líf og heilsa, Hjartaheill, Samtök lungnasjúklinga, Astma- og ofnæmisfélag Íslands og SÍBS Verslun taka þátt í Fit&Run opnunarhátíð Reykjavíkurmaraþonsins fimmtudaginn 22. ágúst og föstudaginn 23. ágúst 2019.

María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir lungna- og ofnæmislæknir verður hlaupurum til ráðgjafar föstudaginn 23. ágúst kl. 15:30-17:30.

Þar verður gestum boðið í ókeypis heilsufarsmælingu þar sem mældur er blóðþrýstingur, blóðsykur, blóðfita, súrefnismettun ofl. auk þess sem fólki gefst kostur á að svara spurningavagni um áhrifaþætti heilsu og nálgast í framhaldi samanburðarniðurstöður á Heilsugátt SÍBS. Jafnframt verður boðið upp á fráblásturspróf og ráðgjöf til hlaupara m.a. varðandi einkenni áreynsluastma.

Við hvetjum alla til að nýta sér tækifærið og hlúa að eigin heilsu.

Maraþon

Nú er bara vika i Reykjavíkurmaraþonið.

Og þessir frábæru hlauparar ætla að leggja okkur lið og hlaupa fyrir okkur 🏃‍♀️🏃‍♂️

Við hvetjum ykkur til að heita á þá.

 

 Kveðja stjórninn

https://www.hlaupastyrkur.is/godgerdafelog/charity/727/samtok-lungnasjuklinga

Maraþon

Nú fer að styttast í Reykjavíkurmaraþonið en það fer fram 24 ágúst. Við hjá Samtökum lungnasjúklinga ætlum að gefa hlaupurunum okkar boli og buff.

Við verðum með á stórsýningunni Fit & Run sem fer fram i Laugardalshöllinni 22 og 23 ágúst.

Við værum alveg til í að sjá fleiri hlaupara hlaupa fyrir okkur 🏃‍♂️🏃‍♀️.

Við bendum á að það má alveg heita á þessa frábæru hlaupara sem eru að hlaupa fyrir samtökin.

Kveðja stjórninn

​https://www.hlaupastyrkur.is/godgerdafelog/charity/727/samtok-lungnasjuklinga

Tilkynning

Okkur er sönn ánægja að tilkynna félagsmönnum okkar að Icelandair hefur ákveðið að veita Samtökum lungnasjúklinga árlegan styrk.

Hefur stjórn SLS ákveðið að nýta styrkinn til að niðurgreiða súrefniskaup um borð í flugvélum Icelandair.

Er það ætlað félagsmönnum sem þurfa á súrefnisgjöf að halda í flugi.

 

Nánari upplýsingar í síma 560 4812

Reykjavíkurmaraþon

Viljum minna alla þá sem ætla að taka þátt í Reykjavikurmaraþoninu að hægt er að hlaupa fyrir Samtök lungnasjúklinga.

Við erum þakklát fyrir allan þann stuðning sem við fáum.

https://www.hlaupastyrkur.is/godgerdafelog/charity/727/samtok-lungnasjuklinga

Stjórn Samtaka lungnasjúklinga starfsárið 2019 - 2020

Axel Bryde, Eyjólfur Guðmundsson, Guðjón Hilmarsson, Gunnhildur Hlöðversdóttir, Aldís Jónsdóttir formaður, Ólöf Sigurjónsdóttir, og Kristin Eiríksdóttir varaformaður..

Heimsókn Elizu Reid forsetafrúar.

Á síðasta félagsfundi vetrarins sem haldin var þann 6. maí síðasliðin kom Eliza Reid forsetafrú í heimsókn, en Samtökin voru þau fyrstu sem hún gerðist verndari fyrir eftir að hún tók við embætti.

Frú Eliza sagði frá sjálfri sér (í léttum dúr), formaður sagði stuttlega frá starfi félagsins og opnaði síðan fyrir spurningar úr sal.

Skiptst var á skoðunum bæði varðandi lungnasjúkdóma og einnig almennt um lífið og tilveruna.

Að lokum gaf félagið frú Elizu bókina Sögustaðir- í fótspor W. G. Collingwoods.

Höfðu félagar orð á, eftir fundinn, að þetta hafi verið mjög gefandi stund og mikil ánægja með heimsókn frú Elizu Reid.

Aðalfundur mánudaginn 13 maí.

Aðalfundur Samtaka lungnasjúklinga verður haldinn mánudaginn 13. maí kl 17:00

í SÍBS húsinu að Síðumúla 6.

Dagsskrá:

Venjuleg aðalfundarstörf, samkvæmt lögum samtakanna. Önnur mál

Vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Stjórnin.

Mánudagarnir 6. maí og 13. maí 2019

Nú tók stjórnin u beygju, síðasti fundur var ekki síðasti félagsfundur.  Hann var 1. apríl fundur.

 

Mánudaginn 6. maí 2019 kl. 16:00 -18:00

 

Þá kemur verndari samtakanna, Frú Eliza Reid forsetafrú á félagsfund sem verður síðasti félagsfundur þessa vetrar.

 

Höfum notalega stund, kaffi og með því og höfum gaman. Munið eftir munnhörpunum.

 

Mánudagurinn 13. maí 2019 kl. 17:00

Verður aðalfundur samtakanna.

 

Hefðbundinn aðalfundur.

Kaffiveitingar á eftir.

 

Hlökkum til að sjá ykkur sem allra flest. í SÍBS húsinu í Síðumúla 6 á annarri hæð.

Lyfta er í húsinu

 

kveðja,

Stjórnin. 

Félagsfundur mánudaginn 1. apríl

Þá er komið að næsta félagsfundi, mánudaginn 1. apríl 2019 kl. 16:00 -18:00 í SÍBS húsinu í Síðumúla 6 á annarri hæð. Lyfta er í húsinu.

 

Grillvagninn ætlar að koma að grilla fyrir okkur hamborgara og svo verður einhver gómsætur eftirréttur.

Við munum spjalla um liðinn vetur og vetrarstarfið næsta vetur og hafa gaman.

Þetta verður sem sagt síðasti fundurinn okkar þennan vetur fyrir utan lögbundinn aðalfund í maí, sem verður auglýstur síðar.

 

Hlökkum til að sjá ykkur sem allra flest.

PS. þetta er ekki apríl gabb eða til að fá ykkur yfir þröskuldinn !

Reykjavíkurmaraþon.

Fyrir þá sem ætla að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar viljum við minna á að það er hægt að skrá sig sem styrktaraðila Samtaka lungnasjúklinga.

https://www.hlaupastyrkur.is/godgerdafelog/charity/727/samtok-lungnasjuklinga

Félagsfundur mánudaginn 4. mars 2019 kl. 16:00-18:00

Þá er komið að næsta félagsfundi, mánudaginn 4. mars 2019 kl. 16:.00 -18:00 í SÍBS húsinu í Síðumúla 6 á annarri hæð. Lyfta er í húsinu

Byrjum kl. 16:00 með því að fá okkur kaffi og með því og jafnvel að blása í munnhörpunar saman.

 

Kl.17:00 mætir Heiðbjört Tíbrá sjúkraþjálfari, kynnir hugmyndarfræði þar sem áhersla er lögð á að hreyfa bandvefi með rólegum teygjum.

Munið eftir að grípa með ykkur munnhörpurnar.

Fundinum verður streymt.

Hlökkum til að sjá ykkur sem allra flest.

Til sölu notuð Inogen One G4 súrefnisvél.

Lítið notuð - aðeins 478 klst. Framleiðir 90 % súrefni.

Taska, tvær stórar auka rafhlöður fylgja og hleðslutæki fyrir bíl.

Ný yfirfarin af Donna ehf.

Verð kr. 295.000,-

upplýsingar í síma 567-4023 eða 699-7734

Sólveig Jóna

Félagsfundur mánudaginn 4. febrúar 2019.

 Þá er komið að næsta félgasfundi, mánudaginn 4. febrúar 2019 kl. 16:.00 -18:00 í SÍBS húsinu í Síðumúla 6 á annari hæð. Lyfta er í húsinu.

Byrjum kl. 16:00 með því að fá okkur kaffi og með því og jafnvel að blása í munnhörpunar saman.

Kl.17:00 mætir Sóli Hólm uppistandari og skemmtir okkur.

Munið eftir grípa með ykkur munnhörpurnar.

Hlökkum til að sjá ykkur sem allra flest.

Félagsfundur mánudaginn 7. janúar 2019

Gleðilegt nýtt ár öllsömul.

Næsti félagsfundur verður mánudaginn þann 7 janúar 2019.

Byrjum kl. 16:00 með því að fá okkur kaffi og með því og jafnvel að blása í munnhörpuna.

Kl. 17:00 verður Ólafur Baldursson lungnalæknir með fróðleiksmola. Stefnum á að streyma fundinum á facebook síðu samtakanna.

Eins og flestir vita erum við staðsett í Síðumúla 6 á efri hæð og það er lyfta í húsinu.

Það kostar ekkert að koma til okkar á opið hús og oft er mikið fjör hjá okkur. Hvetjum alla félagsmenn að mæta og eiga notalega stund í góðum félagskap.

Hlökkum til að sjá ykkur sem allra flest.